Páskaboðskapurinn í ár - Lækning þjáningarinnar!
4.4.2010 | 13:21
Lækning þjáningarinnar er það fyrsta sem opinberlega kom frá Silo.
Punta de Vacas, Mendoza, Argentinu, 4. maí 1969
Ef þú hefur komið til þess að hlýða á mann sem þú telur að útdeila muni visku, þá ertu á rangri leið því sanna visku finnur þú ekki í bókum eða ræðum – sanna visku finnur þú í djúpum vitundar þinni, líkt og þú finnur hina sönnu ást djúpt í hjarta þínu.
Ef þú hefur komið fyrir orð rógbera og hræsnara með það fyrir augum að komast að einhverju sem hægt væri að nota gegn manni þessum síðar meir, þá ertu á rangri leið, því hann er ekki hér í þeim tilgangi að æskja einhvers af þér eða hafa not af þér, einfaldlega vegna þess að hann þarfnast þín ekki.
Þú verður að vita hver það er sem talar til þín. Þú hlýðir á mann sem þekkir ekki lögmál alheimsins eða lögmál sögunnar, mann sem er lítt fróður um þau öfl sem hinar ýmsu þjóðir lúta.
Þessi maður höfðar til vitundar þinnar á þann hátt sem þeir gera, sem hugleiða í návist snævi þakinna tinda, mörg þúsund fetum ofar borgum þar sem sjúkleg ágirnd ræður ríkjum. Þarna niðri í borgunum, þar sem hver dagur er barátta, þar sem dauðinn leggur að velli von sérhvers dags, þar sem hatur fylgir í kjölfar ástarinnar, þar sem hefndin fylgir í kjölfar fyrirgefningarinnar, í þessum borgum þar sem ríkir og fátækir búa hlið við hlið, í þessum samþjöppuðu samfélögum – hafa sorgin og þjáningin tekið sér bólfestu.
Þú þjáist, þegar sársaukinn nístir líkama þinn. Þú þjáist þegar hungrið tekur öll völd í líkama þínum. En þú þjáist ekki aðeins vegna tilfallandi líkamlegs sársauka eða vegna þess að þig hungrar. Þú þjáist líka, vegna sjúkdóma sem herja á líkama þinn.
Þú verður að greina á milli tvenns konar þjáningar: Þjáningar sem tilkomin er vegna veikinda, en þá þjáningu er hægt að lina með hjálp vísindanna; rétt eins og vinna má bug á þjáningu vegna hungurs með vexti og viðgangi réttlætis.Til er annars konar þjáning sem stendur ekki í beinu sambandi við líkamleg veikindi, en getur þó átt rætur að rekja til þeirra. Ef þú ert fatlaður, blindur eða heyrnarlaus, þá þjáist þú. En jafnvel þótt sú þjáning eigi líkamlegar orsakir, þá er þjáningin hér fyrst og fremst huglæg.
En svo er líka til þjáning sem læknavísindin eða framþróun réttlætis ráða ekki við. Þessi tegund þjáningar er fyrst og fremst huglæg, hún hörfar þegar innri trú er sterk og þú ert þrunginn lífsgleði, eða þegar ástin vermir hjarta þitt.Þú verður að gera þér ljóst, að þessi tegund þjáningar á ávallt rætur að rekja til ofbeldis sem fyrirfinnst í vitund þinni. Þú þjáist vegna þess að þú óttast að missa það sem þú hefur, vegna þess sem þú hefur þegar misst, eða vegna þess sem þig langar að öðlast. Þú þjáist vegna þess sem þér finnst þig skorta, eða vegna þess sem þú óttast.
Þessir eru hinir mestu óvinir mannsins; óttinn við veikindi, óttinn við fátækt, óttinn við dauða, óttinn við einmanaleika. Þessi form þjáningarinnar tilheyra öll huganum og þau birta þitt innra ofbeldi, ofbeldið sem í huga þínum ríkir. Taktu sérstaklega eftir, hvernig þetta ofbeldi á alltaf rætur í löngunum þínum og þrám. Því ofbeldisfyllri sem einhver er þeim mun grófari og meiri eru langanir hans.
Nú langar mig að segja þér sögu sem gerðist endur fyrir löngu:
Eitt sinn var ferðalangur sem leggja þurfti í langferð. Hann tók hest sinn, spennti hann fyrir vagn og hóf sína löngu ferð til fjarlægs ákvörðunarstaðar, en þangað þurfti hann að ná innan ákveðinna tímamarka. Hann kallaði hestinn sinn „Nauðsyn“ og vagninn „Ágirnd“. Annað vagnhjólið nefndi hann „Lystisemdir“ og hitt „Þjáningu“. Leið hans lá stundum til vinstri og stundum til hægri, en alltaf miðaði honum áleiðis til ákvörðunarstaðar. Því meir sem hann jók ferðina þeim mun hraðar snerust hjól „Lystisemdanna“ og „Þjáningarinnar“, og tengd sama öxlinum báru þau uppi vagninn „Ágirnd“.
Þar sem ferðin var mjög löng, kom að því að leiðindi tóku að sækja á ferðalanginn. Þá ákvað hann að skreyta vagninn fagurlega, til að vera umvafinn fegurð. En eftir því sem hann skreytti vagninn „Ágirnd“ meira, þeim mun þyngri varð hann fyrir „Nauðsynina“ að draga. Í beygjum og brekkum átti vesalings skepnan í mestu erfiðleikum með að draga vagn „Ágirndarinnar“, og þar sem vegurinn var gljúpur og sendinn sukku hjól „Lystisemdanna“ og „Þjáningarinnar“ djúpt
Dag nokkurn kom að því að örvænting greip ferðamanninn vegna þess hve leið hans var löng og hversu fjarri hann var takmarki sínu. Um nóttina ákvað hann að hugleiða þetta og í miðri íhuguninni heyrði hann hnegg síns gamla vinar „Nauðsynjar“ og ar sem honum var merking þess ljós, tók hann um morguninn að létta á vagninum með því að rífa niður skreytingarnar. Að því búnu hélt hann af stað og nú dró „Nauðsyn“ vagninn á léttu brokki og þeim miðaði mun betur áfram. En ferðalangurinn okkar hafði tapað tíma sem ekki var unnt að endurheimta. Næsta kvöld gaf hann sér aftur tíma til íhugunar og í það skiptið fékk hann nýja viðvörun frá vini sínum „Nauðsyn“ um að nú stæði hann frammi fyrir enn erfiðari ákvörðun, því nú þyrfti hann að sleppa öllu. Í dögun losaði ferðamaðurinn sig við „Ágirndina“ og vissulega þýddi það að með því tapaði hann hjóli „Lystisemdanna“, en losnaði líka um leið undan hjóli „Þjáningarinnar“. Hann steig svo á bak „Nauðsyninni“ og reið á stökki yfir græna akrana, þar til hann náði ákvörðunarstað í tæka tíð.
Af þessu má sjá hvað ágirndin getur verið mikill fjötur um fót. En fjötrar ágirndarinnar geta vissulega verið missterkir. Á stundum er eins og um þunga hlekki sé að ræða, en líka eru grannir þræðir sem auðvelt er að slíta. Upphefðu langanir þínar! Gerðu þær tærari! Vertu þeim ofar! En það þýðir að þú verður að varpa hjóli „Lystisemdanna “ fyrir róða og um leið muntu losna undan oki „Þjáningarinnar“.
Ofbeldið í manninum, sem á rætur í löngunum, er ekki bara eins og sjúkleiki í vitund hans, heldur kemur hvarvetna fram í mannheimi og allur þorri fólks verður fyrir barðinu á því. Þegar ég tala um ofbeldi er ég ekki bara að tala um ofbeldi eins og í hernað og stríðsrekstri, þar sem einn vegur annan og menn tortíma hver öðrum. Það er ein tegund ofbeldis, svokallað líkamlegt ofbeldi.
Það er einnig til efnahagsegt ofbeldi. Efnahagslegt ofbeldi kemur fram í því að þú hagnast á öðrum. Einnig þegar þú stelur frá öðrum, þegar þú ert ekki lengur annars bróðir, heldur ránfugl sem ræðst jafnvel á sinn minnsta bróður.
Kynþáttaofbeldi er ein tegund ofbeldis. Heldur þú að það sé ekki ofbeldi þegar þú ofsækir mann sem er af öðrum kynþætti en þínum eigin ? Heldur þú að það sé ekki ofbeldi þegar þú rægir aðra mannveru vegna þess að hún er af öðrum kynþætti en þínum?
Ofbeldi vegna mismunandi trúarbragða er líka vel þekkt. Heldur þú að það sé ekki ofbeldi þegar þú neitar manni um vinnu, lokar á hann dyrum eða rekur hann úr starfi, vegna þess að hann er ekki af þínu trúarsamfélagi ? Heldur þú að það sé ekki ofbeldi, þegar þú á ærumeiðandi hátt vegur að þeim sem ekki aðhyllist trúarskoðanir þínar? Þegar þú vegur að einhverjum innan fjölskyldu hans, meðal ástvina vegna þess að hann aðhyllist ekki þína trú.
Ofbeldið birtist okkur í ýmsum fleiri myndum, svo sem þeim sem byggja á siðfræði hræsnarans. Þig langar að þröngva lífsvenjum þínum upp á aðra; þig langar að þröngva köllun þinni upp á aðra. Hver hefur sagt að þú sért sá sem beri að taka til fyrirmyndar ? Hver hefur lætt því inn hjá þér að þú eigir að þröngva þínum lífsvenjum upp á aðra ? Hvaða líkan ætlar þú að nota í þeim tilgangi ? Þannig birtist okkur enn ein mynd ofbeldis.
Eina leiðin til að binda enda á þetta ofbeldi í sjálfum sér og öðrum, í þessum heimi sem við lifum og hrærumst í, er að rækta með sér innri trú og ástunda íhugun og innri vinnu. Tilsýndar geta virst ýmsar auðveldar leiðir til að vinna bug á ofbeldinu en það er blekking. Þessi heimur sem við lifum í er að því kominn að bresta og það virðist engin leið til að binda enda á ofbeldið.Leitaðu ekki óraunhæfra undankomuleiða.
Þessi brjálæðislega tilhneiging til ofbeldis verður ekki yfirunnin á sviði stjórnmálanna. Á þessari plánetu fyrirfinnst enginn stjórnmálaflokkur eða stjórnmálahreyfing sem bundið getur enda á ofbeldið. Það geta virst ýmsar leiðir til þess að losna undan oki ofbeldisins en allt slíkt er blekking. Mér hefur verið tjáð að ungt fólk, um allan heim, grípi til slíkra blekkinga í því skyni að reyna að losna undan ofbeldinu og þjáningunni. Ein þessara leiða er leið eiturlyfjanna. Vertu á varðbergi gagnvart slíkum blekkingum, í þeim felst engin varanleg lausn.
Bróðir minn, systir mín, farið eftir einföldum boðorðum, einföldum og skýrum eins og steinarnir og snjórinn umhverfis okkur, eins og sólin sem blessar okkur með geislum sínum. Berið frið með ykkur hvert sem þið farið og hvar sem þið komið. Bróðir min, systir mín, langt aftur í sögunni sjáið þið mannveru og þjáningin skín úr ásjónu hennar. Lítið á þetta þjáða andlit ... og verið minnugu þess að nauðsynlegt er að halda áfram, að nauðsynlegt er að læra að hlægja og það er líka nauðsynlegt að læra að elska.
Til ykkar, bróðir minn og systir, varpa ég þessari von um gleði, þessari von um ást, svo þið getið upphafið hjörtu ykkar og anda og líka til þess að þið gleymið ekki að upphefja líkama ykkar.
Silo, Punta de Vacas, 4. Maí, 1969
Bloggar | Breytt 7.4.2010 kl. 08:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vel þess virði að horfa á
6.6.2008 | 13:35
Reynsla taugalíffærafræðings (neuroanatomist)
af heilablæðingu.
Sjá “Jill Bolte Taylor´s Stroke of Insight“
undir
Tenglar - Áhugavert
hérna hægra megin
á síðunni.
“Jill Bolte Taylor's Stroke of Insight“
Bloggar | Breytt 29.11.2020 kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hamingja og þjáning
22.4.2007 | 16:09
Tveir mikilvægustu eiginleikar mannsins eru minnið og ímyndunaraflið. Án þeirra gætum við ekki leyst af hendi dagleg störf. Ef annar þessara eiginleika skerðist eða breytist á einn eða annan máta verða dagleg störf erfiðari. Minnið og ímyndunaraflið eru nauðsynleg fyrir lífið. En þegar þessir annars ágætu eiginleikar loka mann af í þjáningu, í stað þess að vísa fram á veginn er nauðsynlegt að gera eitthvað til breyta ástandinu.
Minnið getur stöðugt kallað fram neikvæðar minningar sem koma í veg fyrir að það veiti þá hjálp sem við þörfnumst. Eins getur verið með ímyndunaraflið ef það lætur mann stöðugt finna til ótta, hræðslu, kvíða og efa gagnvart framtíðinni.
Það sem við skynjum á hverjum tíma er enn einn mikilvægur eiginleiki sem er lífinu nauðsynlegur. Með skilningarvitunum getum við séð, heyrt, fundið til og yfirleitt skynjað það sem gerist í umhverfinu. Sumt af því sem við skynjum líkar okkur vel og annað illa. Hungur, þung högg, mikinn hita og kulda skynjum við fyrir tilstilli skynfæranna sem sársauka. Við getum líka fundið til andlegs sársauka sem er ólíkur þessum líkamlega sársauka. Það er slík þjáning sem við skynjum þegar okkur líkar ekki það sem við sjáum umhverfis okkur og finnst hlutirnir ekki vera eins og þeir ættu að vera.
Minnið, ímyndunaraflið og skynjunin eru lífinu nauðsynlegar leiðir sem geta breyst í ,,óvini" ef þær valda þjáningu.
Minnið veldur þjáningu þegar við minnumst mistaka, vonbrigða eða glataðra tækifæra, hluta eða ástvina.
Ímyndunaraflið veldur þjáningu ef ímyndir um framtíðina eru neikvæðar og valda þess vegna ýmiss konar kvíða eða ótta. Ótta við að missa það sem maður á, ótta við einmanaleika, einangrun, elli og dauða. Við þjáumst af völdum ímyndunarinnar þegar við höldum að framtíðin beri það í skauti sér að óskir okkar, sjálfum okkur og öðrum til handa, rætist ekki.
Skynjunin veldur þjáningu þegar við verðum þess vör að ástand okkar er ekki sem skyldi eða þegar við fáum ekki viðurkenningu frá okkar nánustu og samfélaginu. Einnig þegar gert er á hluta okkar í starfi eða þegar eitthvað stendur í vegi fyrir því sem við erum að gera eða viljum gera.
Þegar þessir þrír mikilvægu eiginleikar, minnið, skynjunin og ímyndunaraflið, starfa illa verða þeir farvegir þjáningar. Þetta þrennt er tengt þannig að fari eitthvað úrskeiðis á einu sviði hefur það áhrif á hin tvö og það virðast vera margs konar tengsl þar á milli.
Eitt af markmiðum okkar í lífinu ætti að vera að verða í vaxandi mæli sátt við okkur sjálf. Þetta er mögulegt að því marki sem við lærum að skilja hvað það er sem varnar okkur aukinnar hamingju en hamingja er það ástand þegar engin er þjáningin. Er það manninum mögulegt að komast frá þjáningum sínum? Auðvitað er það mögulegt jafnvel þó hver dagur feli í sér hið gagnstæða. þ.e.a.s. að hjá mörgum virðist þjáningin aukast með hverju ári sem líður.
Hvað ber að gera til að öðlast aukna hamingju? Til þess að svo megi verða þarf að skilja hvernig þjáningin verður til og í framhaldi af því hvernig beri að haga sér þannig að uppspretta þjáningarinnar þorni og eyðist.
Bloggar | Breytt 15.7.2013 kl. 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Endurteknar hugsanir af trú eða sannfæringu leiða til og draga fram hámarksstyrk í athöfnum okkar
15.4.2007 | 16:16
Því oftar sem við endurtökum eitthvað þeim mun skýrar greipist það í minnið og þeim mun meir styrkist vaninn og farvegur fyrir framtíðarbreytni verður til. Ef einhver hugsar að staðaldri af sannfæringu um það að hann sé sjúkur eru sterkar líkur á að sá hinn sami verði veikur. Líkurnar eru miklu minni ef það aðeins hvarflar að honum endrum og eins, án sannfæringar.
Það sama á við um áform okkar í lífinu. Þau verður að þaulhugsa af sannfæringu og taka til íhugunar í sífellu. Ef farið er eftir þessu verða athafnir okkar með þeim hætti sem við hugsum okkur og kalla fram jákvæð viðbrögð frá umhverfinu og þvi fólki sem við umgöngumst.
Bloggar | Breytt 22.4.2007 kl. 18:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hugsanir af trú leiða til og draga fram sterkari breytni
15.4.2007 | 16:07
Bloggar | Breytt 16.4.2007 kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hugsanir leiða til athafna og kalla fram athafnir
15.4.2007 | 15:58

Bloggar | Breytt 22.4.2007 kl. 18:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)